Tilkeyrsla vetrardekkja
Mundu að keyra nýju vertardekkin varlega fyrstu 1000 km fyrir nagladekk og 500-1000 km fyrir ónegld dekk.
Tilkeyrsla sumardekkja
Mundu að keyra nýju sumardekkin varlega fyrstu 500-1000 km.
Grip
Gæði þeirra fáu fersentímetrar dekkjana sem snerta undirlagið skipta höfuðmáli fyrir gripið við hröðun, hemlun og í beyjum. Athugaðu loftþrýstinginn oft!
Rangur loftþrýstingur veldur því að dekkið slitnar fyrr, lengri hemlun og aukinni hættu á að missa stjórn á bílnum. Allt að 1-5psi meiri þrýsting getur þurft í vetrardekk, vegna mýktar dekkjana.
LOFTÞRÝSTINGUR
- Lítill þrýstingur í afturdekkjum getur valdið því að bíllinn verði yfirstýrður (afturendi bílsins rennur).
- Lítill þrýstingur í framdekkjum getur valdið því að bíllinn verður undirstýrður (framendi bílsins rennur).
Ending á grundvelli slits.
Ef loftþrýstingur í hjólbarða er 20% of lítill þá endist hann 30% skemur.
Dæmi: 30 Psi niður í 24 Psi.
Áhrif loftþrýstings í hjólbörðum á hliðarskrið í bleytu og snertiflöt.*
- P=29 psi, fullsnerting = 100%
- P=22 Psi, snerting = 50%
- P=15 Psi, snerting = 25%
Hraði = 80km/h, dýpt vatns = 5mm
Almennt tapast 50% af snertifletinum við 7,5 Psi.
*prófun gerð með Michelin Pilot Primacy 205/55R16
Michelin
Þverofinn ( Radíal ) hjólbarði
Radíal uppbygging hjólbarða samanstanda af þverofnum belgþráðum sem liggja frá kant/sætisvír til kant/sætisvírs. Hver þráður er lagður þannig að hann myndi 90° horn við akstursátt. Ofaná belgþræðina, undir banann, eru síðan lögð belti, stál vírbelti, að grunni tvö lög. Stálvírbeltin eru lögð ofan á hvort annað og mynda vírbeltin horn sem ákvarðast af því hvernig barða um er að ræða. Þykkt stálvír beltanna og belgþráðanna er einnig háð því hvernig barða um er að ræða sem gerir verk hvors hluta sérhæfðara.
Með mismunandi barða er átt við fólksbíla uppí hjólaskóflubarða og allt þar á milli.
Á þessari mynd sjáum við nánar hve sérhæfður hvor hlutinn er. Belgþræðir og styrkur í hlið barðans er einfalt þunnt lag af textílefni (misjafnt eftir börðum). Gúmmílagið sem umlykur belgþræðina er einnig þunnt. Undir bananum liggur sama belgþráðarlagið og í hliðinni með stálvírbeltum ofaná. Þessi hönnun gefur okkur sveigjanlegar hliðar og stífan og sterkan bana.
Í hliðum radíalhjólbarða sjáum við hvernig belgþræðirnir liggja, hver sjálfstæð eining, vætt í gúmmíblöndu til að ná betri bindingu/ viðloðun við gúmmíefnið í hlið barðans og annarra gúmmílaga sem í hliðum og bana geta verið. Við banann eru hlutirnir eilítið flóknari, belgþráðarlögin liggja áfram frá hliðunum og undir banann þar sem stálvírbeltin liggja ofaná með styrktargúmmílagi/lögum á milli. Vírbeltin mynda þríhyrningslagaðan netmöskva.
Í hliðunum er mjög lítil innri hreyfing milli samsíða þráðanna og gúmmímassinn er þunnur. Þess vegna er mjög lítil hitauppbygging þar. Í bananum, þar sem sterkur og stöðugur stálvírmöskvinn liggur, eru afar litlar líkur á að hann nái að aflagast vegna styrkleika netsins. Af þessum sökum nær formið að halda jafnvægi á fletinum og þegar barðinn rúllar breiðir hann úr sér líkt og köngullóarvefur. Vegna þess að baninn aflagast ekki endast radíal barðar mun lengur og bensíneyðsla verður minni.
Radíal barðinn liggur nánast alveg flatur á veginum, jafnvel án þunga. Snertiflöturinn er mjög breiður. Þegar þungi leggst á barðann lengist snertiflötur hans án þess að missa nokkuð af breiddinni. Mynsturbitarnir grípa vel í undirlagið og gefa hámarksgrip vegna stöðugleika banans. Þegar barðinn rúllar hverfur mikið af ójöfnum vegarins og ökumaðurinn verður minna var við þær vegna sveigjanleika og mýktar hliðanna.
Þegar barðinn rúllar helst breidd hans mjög jöfn og stöðug. Það er aðeins lengd snertiflatarins sem breytist við aukinn þunga. Sporvídd barðans breytist þ.a.l. ekki á ójöfnu undirlagi.
Hliðarkraftar hafa lítil sem engin áhrif á stöðugleika banans vegna sjálfstæðrar virkni sveigjanlegra hliða barðans. Hliðarnar virka einsog lamir milli felgunnar og banans og gerir honum kleyft að liggja stöðugum við undirlagið. Rásfesta radíalbarðans er því mjög mikil jafnvel þó hann verði fyrir sterkum hliðarkröftum.
Hlutverk hjólbarða skiptast í sex þætti.
Á geimöld hafa hjólbarðar og bílar náð svo langt í allri þróun og tækni að ökumenn virðast stundum gleyma því að barðinn er eina snerting ökutækisins við veginn:
Það er loftþrýstur barðinn sem þarf að bera þunga bílsins, stýra, drekka í sig hindranir, rúlla, flytja hreyfi- og hemlunarkrafta og endast svo vel sem kostur er.
Þrýstiloftfylltur barðinn heldur uppi ökutækinu þegar það er kyrrrstætt, en við hverja hreyfingu verður barðinn að þola gífurlegar breytingar á þungaþoli við hverja inngjöf og hemlun. Hjólbarðinn er einfaldlega loftgeymir - þrýstiloftgeymir - og það er í raun loftþrýstingurinn sem ber þungann. Fólksbílahjólbarði þarf að geta borið allt að 50 földum eigin þunga.
Það er hjólbarðinn sem stýrir ökutækinu af nákvæmni og án tillits til vegagerðar eða veðurs. Möguleiki bílsins til að halda beinni stefnu fer eftir rásfestu hjólbarðanna. Hjólbarðarnir þurfa að vinna á móti mismunandi kröftum sem vinna í senn með og á móti stefnu barðanna og gera allt þetta á sama tíma og hjólbarðarnir þurfa að halda stefnu sinni. Almennt talað hefur hvert ökutæki sérstaka loftþrýstingsþörf fyrir hvern öxul. Með því að taka tillit til mismunandi þrýstingsþarfa milli fram og afturöxuls er betur hægt að tryggja besta mögulega aksturs og stýrieiginleika hjólbarða og þar með ökutækis.
Barðinn “drekkur í sig hindranir”. Með þessu er átt við að loftfylltur barði og gúmmíið komi í veg fyrir að smá hindranir og holur nái að trufla akstur og þægindi bílstjóra og farþega um leið og barðinn eykur endingu ökutækisins og fylgihuta þess. Helsti eiginleiki hjólbarða er sveigjanleiki, sérstaklega í lóðréttri stefnu. Þessi ótrúlegi styrkur, mýkt og sveigjanleiki í þrýstiloftfylltu rými gerir barðanum kleift að standast miklar og endalausar aflaganir við akstur á ójöfnum og grófum vegum. Réttur loftþrýstingur er þess vegna nauðsynlegur eigi barðinn að ná að sinna sínu hlutverki svo vel sé, þ.e að viðhalda þægindum ásamt aksturs- og stýrieiginleikum.
Barðinn rúllar jafnar, betur og af meira öryggi með réttum loftþrýstingi. Réttur loftþrýstingur tryggir einnig rétta vegmótstöðu og þar með betri og þægilegri akstur ásamt því að tryggja minni orkueyðslu.
Barðinn flytur mismunandi krafta. Allir hreyfikraftar ökutækisins sem myndast við inngjafir og hemlanir fara gegnum hjólbarðana. Hversu vel þessi flutningur heppnast ræðst að öllu leyti af því hve jafn og góður snertiflötur, þessir örfáu fersentimetrar, barðans er við veginn.
Hjólbarðar endast þ.e. í marga milljón hringi sem hver barði nær að rúlla, á sínum líftíma, munu þeir gefa þau bestu mögulegu afköst, öryggi og endingu sem þeim er unnt. Ending eða líftími barðans ræðst að öllu leyti af notkun og umhirðu hans. Það eru fjölmörg atriði sem ákvarða endingu hjólbarða og þau eru öll á valdi ökumanns og eigenda hverrar bifreiðar, nokkur atriði eru:
Hver er þungi ökutækisins, er hann of mikill?
Hver hraðinn er, er hann of mikill?
Hvernig er vegurinn, grófur eða holóttur.
Hver er loftþrýstingurinn, er hann of lítill?
Hvert er ástand hemlanna, eða höggdeyfa, eru þeir bilaðir?
Öll þessi atriði og fjölmörg fleiri hafa áhrif á endingu og útkomu hjólbarða og það sem e.t.v. mestu máli skiptir - á öryggi í akstri því þau hafa áhrif á snertiflötinn sem barðinn hvílir á. Þess vegna spilar loft - þrýstingurinn svo stórt hlutverk í lífi hvers hjólbarða.
Loftþrýstingur hefur áhrif á burðarþol barðans og stærð og lögun snertiflatarins. Hann hefur einnig áhrif á dreifingu hreyfikrafta á mismunandi svæði á barðanum og þar með á snertiflötinn.
Hlutverkin sex tryggja öryggi, þægindi og endingu allan líftíma barðans, en það er notandans að tryggja að það sé mögulegt með því að fara eftir nokkrum grundvallaratriðum.
Hjólbarðar þurfa loftþrýsting til að vinna rétt og örugglega og til að endingin megi verða svo sem best verði á kosið. Þess vegna er mjög mikilvægt að athuga loftþrýstinginn reglulega, helst ekki minna er á hálfsmánaðar- fresti, og framkvæma reglulegar skoðanir á börðunum. Það er engin trygging fyrir því að ekki geti lekið um ventilinn eða meðfram honum eða meðfram felgunni af ýmsum ástæðum, einnig geta komið stungugöt á barðann eftir utanaðkomandi hluti s.s. nagla o.þh. Fleiri atriði þarf að hafa í huga við skoðun, t.d. hvort millibil milli hjóla sé rétt, hvort hemlar og höggdeyfar séu í lagi o.fl.
Réttur loftþrýstingur í hjólbarða tryggir öryggi, þægindi og endingu.
Vissir þú? Að snertiflötur á venjulegum fólksbílahjólbarða við veginn er ekki stærri en stærð venjulegs póstkorts. Snertiflötur mótorhjólahjólbarða er á stærð við nafnspjald!!
Stærðarmerkingar ;
á myndinni hér að ofan eru merkingarnar á barða gerðum fyrir markað í Bandaríkjunum. P (P-metric)
P- merkið táknar þar fólksbílahjólbarða (P-metric). Í Evrópu er þessi bókstafamerking ekki notuð.
215
Stærðin “215” er breidd hjólbarðans í millimetrum.
/65
Þessi tala táknar belghæðina, þ.e. hæð barðans frá felgu að bana, hæðarhlutfallið er reiknað út frá belgbreiddinni.
R
Þessi stafur þýðir að belgurinn er að Radíal uppbyggingu. Til eru aðrar merkingar, sérílagi í Bandaríkjunum, og eru þær “B” fyrir “Bias-belted” uppbyggingu og “D” eða “ – “ fyrir “Diagonal, CrossPly eða Nylon” uppbyggingu. Þessar merkingar sjást yfirleitt ekki lengur í fólksbílabörðum, en sjást m.a. í vinnuvéla og landbúnaðarhjólbörðum.
15
Þessi tala táknar að þvermál felgunnar sem barðinn passar á er 15 tommur. Felgustærðir fólksbílahjólbarða eru allt frá 12” og uppí 20” í dag.
89H
Í beinu framhaldi af stærðarmerkingunni er tölu og bókstafaruna, hér eru tveir tölustafir og einn bókstafur. Á burðarmeiri börðum eru jafnan þriggja stafa tala og einn bókstafur. Fyrir hjólbarða ætlaða fyrir hraða ekki meiri en 40 km/klst, geta verið tveggja og þriggja stafa tala ásamt bókstafnum A með tölustöfum frá 1 og uppí 8. Tölurnar hér tákna burðarþol barðans í kg. (89 = 580 kg.) og bókstafurinn táknar hraðamörk hans. (H = 210 km/klst.). Smelltu hér til að sjá nánari töflu um burðarþol og hraðamörk.
DOT og/eða E merkingar
Þessar merkingar þýða að hjólbarðinn hefur fengið leyfi yfirvalda til notkunar í USA og Evrópu. DOT eru merkingar, eða leyfi frá Bandarískum yfirvöldum, E merkingar eru hinsvegar leyfi gefin út fyrir notkun í Evrópu. Leyfin þýða að framleiðslan og barðarnir eru skv. öryggisstöðlum sem sett eru af viðkomandi yfirvöldum.
DOT MA L9 ABCD 036
Þessi stafa og talnaruna stendur fyrir DOT merki einsog þau litu út fyrir árið 1990.
DOT
Stendur fyrir Division Of Transport eða Samgöngumálaráðuneyti Bandaríkjanna, ökutækjadeild.
MA
Stendur fyrir framleiðandann og/eða verksmiðju sem barðinn er framleiddur í.
L9
Stendur fyrir stærð og týpu barðans.
ABCD
Stendur fyrir framleiðslunúmer barðans vegna eftirlits framleiðanda.
036
Þessi hluti er sennilega það sem almenningi gæti fundist hvað merkilegast við þessa runu, en þessar tölur tákna framleiðsluviku og ár sem barðinn er framleiddur. 03 er þriðja vika og 6 myndi vera 1986.
DOT MA L9 ABCD 036
Á árunum kringum 1985 var farið að ræða breytingar á DOT kerfinu. Hjólbarðaframleiðendur og leyfisveitendur voru sammála um að gamla DOT runan væri vart nothæf lengur í óbreyttri mynd. Ástæðan er sú að eftir því sem tækninni fleygir fram og barðarnir endast lengur gat verið hætta á að númerakerfið gæti valdið ruglingi, þannig gæti verið að menn læsu úr 036, þriðju viku 1966, eða 1976, eða 1986 o.s.frv. Þannig varð að koma upp einfaldri viðbót við kerfið og varð það úr að bætt var aftan við kerfið þessu merki sem skyldi taka gildi á hjólbörðum framleiddum eftir 01. Janúar 1990. Þannig myndi framleiðsluvika hjólbarða með DOT númerið hér að ofan vera, þriðja vika árið 1996. Jafnframt var ákveðið að breyta kerfinu þannig að það gilti til langrar framtíðar. Sú breyting tók gildi 01. Janúar 2000 og var það gert á einfaldan hátt með því að í stað þriggja stafa tölu, skyldi vera komið fyrir fjögurra stafa tölu og skyldi vera lesið úr því þannig að 0301 væri því framleiðsla frá þriðju viku 2001 o.s.frv. DOT MA L9 ABCD 0301
E merki
E merkin svokölluð gegna í raun svipuðu hlutverki og DOT merkin fyrir Bandaríkjamarkað en erfiðara ( fyrir leikmann ) er að lesa einhverjar upplýsingar út úr rununni. Það sem er þó einkennandi fyrir þetta merki er að innan í hringnum sem merkið byrjar á er stafurinn E ásamt tölustaf 1, 2 , 3 o.s. frv., þetta gefur til kynna landið sem gefur út leyfið til notkunar á viðkomandi barða í Evrópu.
Fleiri merkilegar upplýsingar sem hægt er að lesa af hliðum hjólbarða.
Hámarks loftþrýstingur, hámarks burðarþol Upplýsingar um hámarksloftþrýsting og burðarþol barðans er að finna á hliðum hans. Menn skyldu varast að nota þessar upplýsingar til að ákvarða loftþrýsting í barðanum við venjulega notkun. Slíkar upplýsingar er að finna í bílnum og er ákvarðaður af framleiðanda hans og miðaður við bæði venjulegar og ýtrustu aðstæður. Þessar upplýsingar er hægt að finna í hurðarstaf, eða innan á hurð eða jafnvel í hanskahólfi og ætti einnig að vera í þjónustubók bílsins.
Treadwear Traction Temperature
Þessar upplýsingar er skylda að setja á hjólbarða ætlaða til sölu í Bandaríkjunum.
Treadwear
Slitþol bana.
Þessum tölulegu upplýsingum er ætlað að vera notaðar til samanburðar við mælingar á endingu hjólbarða undir reglulegu og nákvæmu eftirliti yfirvalda á tilbúnum prófunarbrautum. Hjólbarði með töluna 200 ætti að endast tvisvar sinnum lengur en barði með töluna 100 á prufubrautum yfirvalda.
Það er engan veginn hægt að tengja þessar tölur beint við ætlaða endingu eða þeirrar endingar sem menn óska sér " úti í náttúrunni". Ending hjólbarða er háð svo mýmörgum og mismunandi atriðum s.s akstursmáta, loftþrýstingi, vélarstærð, gerð vega, veðri o.fl. o.fl. sem illmögulegt er að mæla beinlínis, að tölur eiga engan veginn við.
Traction
Grip.
Þarna er um að ræða einkunnir í forminu A - B - C- og eru einnig miðaðar við pufubrautir undir nákvæmu eftirliti yfirvalda. Bókstafirnir þýða hemlunareiginleika barðans í bleytu og fara mælingar fram á malbiki og á steyptum vegi.
Temperature
Hiti.
Þarna er einnig um að ræða einkunnir í forminu A-B-C- og eru einsog áður fengnar með nákvæmri prófun undir ströngu eftirliti yfirvalda. Þær þýða "mótstöðu" barðans gegn hitauppbyggingu og möguleikum hans á að dreifa og losa sig við hitann sem hreyfingin veldur.
Ýmsar upplýsingar um efni í belg og bana
Upplýsingar um efni sem notuð eru í belg og bana ásamt fjölda vírmotta og fjölda belgþráðarlaga er að finna á hliðum hjólbarða. Í belgþráðarlögum er oftast nær notað Rayon, Polyester eða Polyamid þræðir, og er yfirleitt um ræða eitt belgþráðarlag í hliðum og liggur það undir vírmotturnar í bananum og yfir á hina hlið barðans. Smelltu hér til að sjá þverskurðarmynd af hjólbarða með upplýsingum um efni í belg og bana..
M+S
M+S merkið (og myndin) táknar að barðinn stenst kröfur sem gerðar eru til hjólbarða ætlaða til nota í vetrarakstur. Þetta gildir jafnt um vetrarhjólbarða með eða án nagla.
TUBELESS
TUBE TYPE
Tubeless þýðir að barðann er hægt að nota án slöngu en hjólbarða með Tube Type áletrun þýðir að það verður að nota hann með slöngu.
ROTATION
Rotation eða snúningsátt er að finna á sumum hjólbörðum, ásamt ör eða örvum sem benda í snúningsáttina. Þetta þýðir í raun aðeins að virkni mynstursins er best ef barðinn snýst í þessa átt. Svona merki er helst að finna á vetrarhjólbörðum en þó í auknum mæli á sumarhjólbörðum.
Hjólbarðaframleiðendur setja fleiri upplýsingar sem hægt er að lesa af hliðum hjólbarða, en það eru þó yfirleitt upplýsingar sem eru einkennandi fyrir þeirra eigin framleiðslu.
R + W
Þetta merki er að finna á sumarhjólbörðum frá MICHELIN þ.e þeim börðum sem eru framleiddir í GREEN X eða ENERGY línunni og þýðir ROAD & WINTER. Þetta þýðir að ENERGY hjólbarðarnir, sem framleiddir eru að miklu leyti úr hinu frábæra SILICA efni sem MICHELIN kynnti uppúr 1990, hafa einstaklega góða eiginleika í vetrarslabbi og slyddu. Í raun þýðir þetta að lengja mætti þann tíma sem hægt er að nota sumarhjólbarðana, sérstaklega á norðlægum slóðum. MICHELIN vill þó taka skýrt fram að þessum börðum er ekki ætlað að vera neinskonar vetrarhjólbarðar, enda vetrarbarðar með mun betri og sérhæfðari gúmmíblöndu sem henta betur til vetraraksturs.
Radial XSE
Þetta merki er að finna á fólksbílahjólbörðum frá MICHELIN og merkir RADÍAL SAVE ENERGY. X = skrásett vörumerki MICHELIN og þýðir stálbelta radíal.
GREEN X
Þetta merkir að hjólbarðinn er framleiddur í GREEN X línunni(fjölskyldunni), undir vörumerkinu ENERGY en SILICA efnið er aðal uppistaðan í gúmmíefninu í bana/slitgúmmíinu o.fl. Þessir barðar hafa minni vegmótstöðu en aðrir sambærilegir barðar og spara því umtalsverða orku við að knýja bifreiðina áfram. Reyndar er vegmótstaðan kringum 20% minni og sparnaður í bensíneyðslu 5-6%, og það án þess að gefa neitt eftir í endingu, gripi eða þægindum í akstri.
Loftþrýstingur í hjólbörðum hefur áhrif á jafnvægi bílsins.